Sunday, April 17, 2011

Pestókjúklingur

Athugið að ef þið ætlið að hafa kartöflurnar með er best að byrja á þeim þar sem að þær taka lengri tíma.

fyrir 4
  • 4 kjúklingabringur
  • 1 pestókrukka (grænt, rautt eða heimagert)
  • 2 msk rjómaostur
  • 1 mozzarellakúla, rifin
  • 2 stórir tómatar eða nokkrir litlir, skornir í sneiðar (eða sólþurrkaðir)
  • salt og pipar eftir smekk
Skerið kjúklingabringurnar í tvo hluta og raðið í eldfast mót. Ég sker kjúklingabringurnar í tvo hluta svo að þær þurfi styttri eldunartíma. Hrærið saman pestóinu og rjómaostinum og hellið yfir kjúklinginn. Stráið svo mozzarella og tómötunum yfir og kryddið með salti og pipar. Bakið við 200 C í 20-25 mínútur.
Ég bar kjúklinginn fram með kartöfluskífum sem ég geri svona;
Balsamkartöflur
  • Nokkrar kartöflur, skornar í 0.5 cm þykkar sneiðar
  • 0.5 dl ólífuolía
  • 2-3 msk balsamedik
  • salt og pipar
Raðið kartöflunum á bökunarplötu. Mér finnst oft gott að nota smjörpappír undir, þá festast kartöflurnar síður við. Hellið ólífuolíu og balsamediki yfir og bakið við 200 C í 40 mínútur.
Fyrir þá sem vilja gera pestóið sitt sjálfir, sem er mjög einfalt, þá læt ég fylgja hérna uppskrift af því:
Pestó
  • Handfylli af ferskum basilikublöðum
  • 50 g parmesanostur, rifinn
  • 1 1/2 dl ólífuolía
  • 3 msk furuhnetur
  • salt og pipar
  • avokado (valfrjálst)
Léttir réttir Rikku

Suðrænn þorskur

fyrir 4
  • 3 hvítlauksrif
  • chili-flögur (krydd) á hnífsoddi
  • 1 msk fersk steinselja
  • 4 msk ólífuolía
  • 5 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
  • 1 rósmaríngrein, smátt söxuð (takið greinina frá)
  • 800 g roðlaus þorskur, skorinn í bita
  • 2 sítrónur, skornar í þunnar sneiðar
Búið til marineringu með því að setja hvítlaukinn, chili-flögurnar, steinseljuna og ólífuolíuna í matvinnsluvél og vinnið vel saman. Setjið yfir fiskinn ásamt tómötunum og rósmaríninu og látið liggja í a.m.k klukkustund, helst allt að 4 klukkustundum. Setjið þorskinn í eldfast mót og raðið sítrónusneiðunum yfir. Bakið við 200 C í 10 mínútur.

Tandoori kjúklingalundir

fyrir 4
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk Garam Masala krydd
  • 1 msk kanill
  • 2 1/2 msk Rajah tandoori mauk
  • safi af 1 sítrónu
  • 3 dl létt AB-mjólk
  • 1 1/2 msk agavesíróp
  • 600 g kjúklingalundir
  • 25 g saxaður ferskur kóríander, saxaður
Blandið saman hvítlauknum, kryddunum,sítrónusafanum, maukinu, AB-mjólkinni og sírópinu. Setjið kjúklingalundirnar út í og látið marinerast í amk. klukkustund. Þræðið lundirnar upp á pinna og grillið í u.þ.b.  5 mínútur á hvorri hlið. Stráið fersku kóriander yfir grillaðan kjúklinginn.
Mintusósa
  • 1 dl létt AB-mjólk
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • ½ lítil dós ananas, saxaður
  • handfylli af ferskri mintu, söxuð
  • pínu salt
Blandið öllu saman og kælið.

Primal meðlæti:
  • Blandað salat. 
Annað mögulegt meðlæti:
  • Santa Maria heilhveiti tortillur
  • 1 dós hreinn fetaostur
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í bita
  • 1 askja Lambhaga eikarlauf
Vefjið grillaðri kjúklingalund ásamt sósu grænmeti og fetaosti inn í hverja tortillu fyrir sig og berið fram.
Eða berið fram með blönduðu salati og hrísgrjónum.